Íþróttafólk ársins 2020 tilkynnt

Dagur Örn Fannarsson 19 ára og Marín Aníta Hilmarsdóttir 16 ára eru yngstu keppendur í sveigboga sem hafa verið valin íþróttafólk ársins í bogfimi, bæði keppa fyrir BF Bogann. Enginn sveigboga keppandi yngri en 35 ára hefur áður verið titlaður íþróttamaður og kona ársins í bogfimi og þetta er aðeins í annað sinn sem sveigboga keppandi er titlaður íþróttakona ársins. Þetta eru því tímamót í íþróttinni.

Dagur tekur framúr í fyrstu tilraun!

Dagur tók Íslandsmeistaratitilinn innandyra með gífurlegum yfirburðum. Dagur var hæstur í undankeppni og tapaði aðeins 1 stig í öllum úrslitaleikjum mótsins. Hann var einnig hæstur í undankeppni á Íslandsmeistaramóti utanhúss. Dagur byrjaði í bogfimi 2018 og þetta var í fyrsta sinn sem Dagur keppir á Íslandsmeistaramótum í opnum flokki og hefur strax sett sig fram sem framúrskarandi íþróttamann. Þetta er einnig fyrsta sinn sem Dagur er tilnefndur og valinn íþróttamaður ársins í bogfimi. Dagur sló tvö einstaklings íslandsmet í U21 flokki á árinu, seinna metið var 553 stig sem setur hann meðal top fimm hæst skorandi sveigboga karla innandyra í bogfimi á Íslandi frá því að skráningar hófust. Dagur sló einnig fimm liðamet með félagsliði sínu.

Marín 16 ára best í sveigboga

Marín sigraði allt með yfirburðum á Íslandsmótum innandyra á þessu ári og tók alla titla og verðlaun sem henni stóðu til boða. Marín vann Íslandsmeistaratitilinn í opnum flokki, U21 og U18 flokki ásamt því að sigra keppendur erlendis frá sem kepptu í alþjóðlega hluta íslandsmóts ungmenna í U18 og U21 flokki. Marín var aðeins einum Íslandsmeistaratitli frá því að taka fullkomið ár í sveigboga kvenna, þar þurfti silfur að duga. Marín á fimm af sex íslandsmetum í U21, U18 og U16 flokkum og hún bætti bæði U18 og U21 utandyra metin á árinu. Ásamt því að bæta fjögur Íslandsmet í liðakeppni með sínu félagsliði. Þetta var í fyrsta sinn sem Marín tók þátt á Íslandsmeistaramótum í opnum flokki og fyrsta sinn sem hún er valin íþróttakona ársins.

Sigruðu bæði fyrir Bogann

Dagur og Marín kepptu og unnu saman Íslandsmeistaratitil í parakeppni félagsliða fyrir Bogann á Íslandsmótinu utanhúss 2020, það var í fyrsta sinn sem keppt var í parakeppni félagsliða á Íslandsmeistaramóti. Þau voru einnig bæði í hæfileikamótun BFSÍ á árinu og náðu lágmörkum fyrir landslið/ungmennalandslið 2021.

Við hjá Boganum erum mjög stolt af þeim báðum og hlökkum til að sjá hvað næstu ár hafa í boði fyir þessi fyrirmynda íþróttafólk.

Mæli með að sjá úrslitaleikina hjá þeim báðum á Youtube rás bogfimisambandsins hér: https://www.youtube.com/c/ArcheryTVIceland/videos

Greinin er mestu tekin frá bogfimisambandinu sem tilkynnti íþróttafólk ársins hægt er að finna upprunalegu greinina hér: https://bogfimi.is/2020/11/08/ithrottafolk-arsins-2020-bogfimi-dagur-og-marin/