Íslandsmeistaramótið utandyra var haldið á Hamranesvelli í Hafnafirði helgina 17-18 júlí og var margt um að vera þegar sveigbogar mættu til leiks á sunnudeginum. En án efa átti Marín Aníta Hilmarsdóttir sitt besta mót hingað til, en einnig mættust Oliver og Haraldur nú í úrslitum og endaði það með tvöföldum bráðabana!!
Marín slær Íslandsmetið með yfirburðum í sveigboga kvenna!
Marín byrjaði mótið eins og í sögu og eftir 36 örvar var útlitið mjög gott með 309 stig. Þá myndu flestir mögulega frjósa upp og ekki ná að gera sitt besta í seinni 36 en þetta var engin veggur fyrir Marín endaði hún með 616 stig eftir 72 örvar! Sem er 17 stiga bæting á metinu sem hún setti úti í París fyrir um mánuði síðan en skorið hennar þar var 599. 616 er 11 stigum hærra en lágmarks skorið fyrir ólympíuleikana og er Marín fyrsti Íslendingurinn sem nær lágmörkunum fyrir ólympíuleikanna í bogfimi og eflaust okkar bjartasta von til að ná sæti fyrir Ísland á ólympíuleikanna í París 2024.
Marín var þó ekki hætt eftir undankeppnina en hún mætti Guðnýu Grétu Eyþórsdóttur frá Skaust í úrslitum en vann þar öruggan sigur 6-0 og náði að hitta fullkomið skor í loka umferðinni eða 10 10 10.
Frábær árangur hjá Marín og eins og alltaf verður spennandi að fylgjast með henni í framtíðinni. Næst á dagskrá hjá Marín er heimsmeistaramót ungmenna sem haldið verður í Pólandi 7-15. ágúst.
Oliver og Haraldur fóru í tvöfaldan bráðabana!
Spennan var svo sannarlega í hámarki í úrslitum sveigboga karla þar sem Oliver Ormar Ingvarsson hjá Boganum og Haraldur Gústafsson úr Skaust mættust. Leikurinn byrjaði jafnt og með 1-1 en svo náði Haraldur að vinna næstu tvær umferðir og setti Oliver í erfiða stöðu með 5-1. Hins vegar svaraði Oliver með að vinna tvær umferðir einnig og var staðan því 5-5 og var því bráðabani, þar er aðeins skotið einni ör og sá sem er næst miðju vinnur. Hins vegar þegar þeir voru báðir búnir að skjóta, voru þeir báðir í 9 og ekki var hægt að mæla hvor örin var nær! þær voru alveg eins og var því dæmt að það þurfi að skjóta aftur. Haraldur skaut góðri ör og lenti aftur í 9 en Oliver náði ekki að skjóta vel og hitti ekki á skotmarkið. Þar með náði Haraldur að verja titilinn sinn sem Íslandsmeistari. Hægt er að sjá viðureignina hér:
Dagur tekur brons í sveigboga
Dagur Örn Fannarsson mætti aftur eftir nokkra mánaða pásu frá bogfimi og náði að sigra Ragnar Þór Hafsteinsson í brons medalíu keppni. Leikurinn virtist vera að sigla í hús fyrir Ragnar í byrjun en Dagur náði sér aftur á strik og vann 6-4.
BF Boginn Íslandsmeistari í Parakeppni 2021
Marín og Oliver náðu einnig að verja titil Bogans í sveigboga parakeppni þegar þau mættu Skaust í úrslitum. Höfðu þau betur þar og unnu öruggan sigur 5-1.