Félagslög Bogfimifélagið Boginn
Samþykkt af síðasta aðalfundi 16. mars 2025.
1.gr. Nafn
Félagið heitir Bogfimifélagið Boginn, skammstafað BFB.
2. gr. Heimili
Heimili félagsins og varnarþing er í Kópavogi.
3. gr. Tilgangur
Tilgangur félagsins er iðkun íþrótta félagsins með æfingum og keppni.
4.gr. Félagsmenn
Félagi getur hver sá orðið sem óskar þess og samþykkir að taka á sig þær skyldur er því fylgja. Sérhverjum félagsmanni 18 ára og eldri ber að greiða félagsgjald til félagsins.
5. gr. Stjórn
Stjórn BFB skal skipuð fimm aðalmönnum og tveimur varamönnum:
- Formaður kosinn til tveggja ára.
- Fjórir meðstjórnendur. Kosning skal fara þannig fram að kjörtímabil er tvö ár og skal helmingur meðstjórnenda kjörinn á hverjum aðalfundi.
- Tveir varamenn kosnir til eins árs.
Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum og skal skipað í embætti varaformanns, gjaldkera og ritara á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund.
Forfallist stjórnarmaður eða hættir störfum í stjórninni tekur varamaður hans stað. Ef stjórnarmaður hefur ekki mætt til þriggja stjórnarfunda og ekki boðað forföll telst stjórnarmaður hættur störfum. Næsti varamaður tekur þá við stöðu þess stjórnarmanns út kjörtímabil sem stjórnarmaður sem er hættur störfum var kjörinn í.
Ef ekki berast nægileg framboð til varamanna eða meðstjórnanda er heimilt að skilja þær stöður eftir auðar þar til á næsta aðalfundi. Stjórn félagsins skal þó aldrei samanstanda af færri en þremur aðalmönnum og einn þeirra skal vera formaður. Ef upp kemur að stjórnin samanstendur af færri en 3 stjórnarmönnum skal boða samstundis til félagsfundar þar sem kosið er í allar þær stöður sem auðar eru.
Formaður boðar stjórnarmenn á stjórnarfundi þegar þurfa þykir, eða ef tveir eða fleiri stjórnarmenn óska þess. Stjórn BFB getur boðið öðrum aðilum að sitja stjórnarfundi með málfrelsi og tillögurétt telji hún ástæðu til.
Afl atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundum, en þegar atkvæði falla jafnt ræður atkvæði formanns. Stjórnarfundur telst löglegur mæti að minnsta kosti þrír stjórnarmenn til hans.
Helstu störf stjórnar BFB eru að:
- framkvæma samþykktir aðalfunda félagsins;
- annast rekstur félagsins;
- vinna að eflingu íþrótta félagsins með menntun og aðstöðu;
- semja reglur og reglugerðir fyrir félagið;
- ákveða stund og stað fyrir aðalfund og annast boðun hans;
- senda lögboðnar skýrslur og tilkynningar;
- koma fram fyrir hönd félagsins;
- velja fulltrúa á þing;
- að halda utan um og uppfæra vefsíðu BFB;
Stjórn er heimilt að ráða launað starfsfólk. Stjórn getur skipað nefndir eða fulltrúa til að sinna ákveðnum verkefnum fyrir sambandið, hlutverk þeirra skal tilgreint í reglugerð.
Daglega umsjón félagsins annast formaður.
Firmaritun félagsins er í höndum allrar stjórnar sameiginlega.
Stjórn félagsins ákvarðar upphæð gjalda félagsins s.s. félagsgjalda, æfingagjalda og námskeiðsgjalda.
Ef félagsmaður gerist brotlegur við lög eða reglur félagsins, eða með framkomu sinni hefur vegið að heiðri félagsins og markmiðum þess, er stjórn heimilt að víkja honum úr félaginu. Þó skal félagsmanni sem vikið er úr félaginu vera heimilt að áfrýja slíkri ákvörðun til næsta reglulega aðalfundar félagsins sem tekur endanlega ákvörðun um aðild viðkomandi félagsmanns í slíkum tilfellum.
6. gr. Aðalfundur
Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins. Aðalfundur félagsins skal haldinn í mars ár hvert. Til fundarins skal boðað á vefsíðu félagsins eða á annan sannanlegan hátt með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara og skal getið dagskrár í fundarboði. Málefni sem félagar óska eftir að tekin verði fyrir á fundinum og framboð skulu hafa borist stjórn minnst viku fyrir aðalfund. Mál sem berast eftir að sá frestur er liðinn verða ekki tekin fyrir nema 2/3 fundarmanna samþykki það. Rétt til fundarsetu á aðalfundi hafa félagar sem eru skuldlausir við félagið tveim vikum fyrir aðalfund.
Dagskrá aðalfundar:
- Fundarsetning.
- Kosnir fundarstjóri og fundarritari.
- Lögð fram ársskýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár og umræða um hana.
- Lagðir fram ársreikningar, umræða og atkvæðagreiðsla.
- Nefndir gefa skýrslur og umræður um þær.
- Fjárhagsáætlun næsta starfsárs.
- Lagabreytingar ef fyrir liggja. 8 Kosningar: a) Stjórn, samanber 5. grein. b) Tveir skoðunarmenn reikninga
- Aðrar tillögur sem borist hafa til stjórnar.
- Önnur mál
- Fundarslit.
Á aðalfundi fer hver félagi með eitt atkvæði og ræður einfaldur meirihluti úrslitum, nema varðandi lagabreytingar, þá þarf samþykki 2/3 atkvæðisbærra fundarmanna til þess að breytingar nái fram að ganga. Ef mörg framboð eru í stjórnarkjöri og enginn frambjóðandi nær meirihluta atkvæða skal frambjóðandi sem fæst atkvæði fékk vera útrýmdur og kosning endurtekin, það ferli skal endurtekið þar til frambjóðandi nær meirihluta atkvæða. Falli atkvæði jafnt í stjórnarkjöri og það hefur áhrif á hver er kosinn í stjórnarstöðu skal kosning endurtekin. Falli atkvæði enn jafnt, skal hlutkesti ráða og skal fundarstjóri annast hlutkestið. Aðalfundur er löglegur sé löglega til hans boðað.
Stjórn félagsins getur boðað til félagsfundar er brýna nauðsyn krefur eða ef 50% félagsmanna bera fram skriflega ósk um það. Til slíks fundar skal boða á sama hátt og til reglulegs aðalfundar. Rétt til fundarsetu hafa skuldlausir félagar. Dagskrá félagsfundar:
- Fundarsetning.
- Kosnir fundarstjóri og fundarritari.
- Tekin til meðferðar þau mál sem gáfu tilefni til boðun fundar og tilkynnt voru í fundarboði.
- Fundarslit.
7. gr.
Málefnum BFB er stjórnað af:
- aðalfundi BFB, sem fer með æðsta vald í málefnum og setur lög félagsins;
- stjórn BFB, sem fer með æðsta vald í málefnum félagsins á milli aðalfunda og kemur fram fyrir hönd félagsins.
Starfs- og reikningstímabil félagsins er almanaksárið.
8. gr. Slit Félagsins
Til að slíta félaginu þarf samþykki 2/3 hluta greiddra atkvæða á aðalfundi. Ef slíkt er samþykkt skal boða annan félagsfund innan tveggja mánaða, sem eingöngu skal fjalla um slitin. Séu slit félagsins einnig samþykkt á þeim fundi með 2/3 hluta greiddra atkvæða er félaginu endanlega slitið. Eignir félagsins skal þá varðveita hjá UMSK, þar til annað félag með sama tilgangi er stofnað á félagssvæðinu, en þá skulu þær renna til þess. Ef slíkt félag er ekki stofnað innan fimm ára frá slitum félagsins renna framangreindar eignir til UMSK
9. gr.
Lög þessi voru samþykkt á aðalfundi og öðlast gildi eftir að UMSK og ÍSÍ hafa staðfest þau.